Miklar náttúruhamfarir af völdum eldgosa og jökulhlaupa hafa í gegnum aldirnar mótað landslag og mannlíf héraðsins. Árið 1783 rann mikið hraunflóð úr Lakagígum á Síðumannaafrétti og kallast það Skaftáreldar. Er það talið eitt mesta hraunflóð sem runnið hefur á jörðinni á sögulegum tíma í einu gosi. Hraunið tók af marga bæi og eyddi stórum landsvæðum í byggðinni. Öskufall varð mikið og afleiðingar eldgossins urðu skelfilegar fyrir íbúa héraðsins, sem og aðra landsmenn. Tímabilið um og fyrst eftir gosið er nefnt Móðuharðindin. Þá hafa einnig orðið mikil eldgos á sögulegum tíma í Eldgjá í Skaftártunguafrétti, Kötlu í Mýrdalsjökli og í Öræfajökli, auk eldgosa í smærri eldstöðvum.