Náttúruundur

Visit klaustur, miðjan á Suðurlandi.

Náttúruundur

Fjaðrárgljúfur

Fjaðrárgljúfur

Skammt vestan Klausturs, við Lakaveg / Holtsveg, er eitt stórbrotnasta náttúruundur landsins. Fjaðrárgljúfur er mikilfengleg náttúrusmíð sem sennilega hefur orðið til á síðjökulstíma fyrir u.þ.b níu þúsund árum. Gljúfrið er skammt vestan Kirkjubæjarklausturs við Lakaveg/Holtsveg. Fjaðrá fellur þar fram af heiðarbrúninni í tiltölulega breiðu og fallegu móbergsgljúfri sem er vel þess virði að gefa nánari gaum. Einfaldast er að aka að gljúfrinu eftir Lakavegi/Holtsvegi og ganga síðan upp með því til að skoða móbergsmyndanir og höggmyndir náttúrunnar betur. Það er einnig hægt að ganga upp eftir gljúfrinu sjálfu, en þá má búast við að talsvert þurfi að vaða. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá.
Lesa meira
Systrastapi

Systrastapi

Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem áttu að hafa verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhýsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunna talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust.Sunnan á Systrastapa er keðja þar sem hægt er að klifra upp á stapann.
Lesa meira
Systravatn

Systravatn

Systravatn er stöðuvatn uppi á fjallsbrúninni fyrir ofan Klaustur.
Lesa meira
Eldmessutangi

Eldmessutangi

Hraunrennslið frá Lakagígum 1783 stöðvaðist þar sem nú heitir Eldmessutangi. Sagt er að sr. Jón Steingrímsson hafi stöðvað hraunrennslið með bænaþunga sínum með Eldmessunni. Að þessum stað gekk söfnuðurinn með sr. Jóni til að kanna aðstæður eftir Eldmessuna. Rennsli hraunsins hafði þá stöðvast og tanginn því talinn staðfesting á áhrifamætti Eldprestsins.
Lesa meira
Núpsstaðarskógar

Núpsstaðarskógar

Núpsstaðarskógar eru í landi Núpsstaðar en Núpsstaður er austasti bærinn í Skaftárhreppi og stendur við Lómagnúp. Á Núpsstað standa einkar merkileg gömul bæjarhús sem talin eru dæmigerð fyrir bæi á Íslandi á síðustu öldum. Þeirra merkast er bænhúsið sem er ein af örfáum torfkirkjum sem enn eru til á landinu. Fegurð umhverfisins við Núpsstaði er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til Vatnajökuls. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir.
Lesa meira
Skaftafell

Skaftafell

Skaftafell er ein af helstu náttúruperlum Íslands. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli var formlega stofnaður þann 15. september árið 1967 og var hann þá um 500 km2. Þjóðgarðurinn hefur síðan verið stækkaður tvisvar, fyrst þann 27. júní 1984 upp í 1600 km2 og aftur árið 2004 í 4.807 km2. Skaftafellsþjóðgarður varð svo hluti af stærsta þjóðgarði Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarði, sem var stofnaður þann 7. júní 2008 og var við stofnun yfir 12.000 km² að stærð. Það samsvarar 12% af yfirborði Íslands og gerir hann að stærsta þjóðgarði í Evrópu. Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu og þriðji stærsti jökull heims. Í fyrstu mun þjóðgarðurinn ná til alls þjóðgarðsins í Skaftafelli og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum auk nánast alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans að vestan, norðan, austan og sunnan.
Lesa meira
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi

Jökulsárlón er í dag eitt þekktasta náttúruvætti Íslendinga og er það ekki að ósekju. Stórfenglegt er um að litast þegar komið er að lóninu og er það eins og að stíga inn í landslag ævintýranna. Á stóru lóni sem Vatnajökull gengur út í fljóta gríðarstórir ísjakar um, en umhverfið markast annars af svörtum söndum og grjóti. Í lóninu gætir flóðs og fjöru og er það því blanda af sjó og ferskvatni. Það leiðir til þess að æti gengur inn í lónið sem selir og æðafuglar sækjast í og setur það skemmtilegan svip á svæðið. Lónið er staðsett á Breiðamerkursandi, á milli Þjóðgarðsins í Skaftafelli og Hafnar í Hornafirði.
Lesa meira
Eldgjá

Eldgjá

Eldgjá er u.þ.b. 70 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin allt að 200 m. Síðast gaus á henni skömmu eftir landnám, í kringum árið 934. Talið að gossprungan nái innundir Mýrdalsjökul og austur á móts við Lambavatn skammt vestan við Laka. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin eru talin þekja 700 km² og er það mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.
Lesa meira
Tröllshylur

Tröllshylur

Tröllshylur við Grenlæk, sunnarlega í Landbroti, er sérkennilegt náttúrufyrirbrigði í fornum farvegi Skaftár. Í nágrenni Grenlækjar eru víðáttumikil flæðiengi, auðugt lífríki og mikið fuglalíf. Grenlækur og nágrenni eru á náttúruminjaskrá.
Lesa meira
Laufskálavarða

Laufskálavarða

Laufskálavarða er hraunhryggur með vörðuþyrpingum umhverfis, milli Hólmsár og Skálmar, við þjóðveginn norðan byggðar í Álftaveri. Hver sá sem fór í fyrsta sinn um Mýrdalssand skyldi hlaða vörðu sér til fararheilla.
Lesa meira
Álftaversgígar

Álftaversgígar

Álftaver er víðáttumikil sveit sem afmarkast af Kúðafljóti að austan og Blautukvísl að vestan. Sveitin dregur nafn sitt af gróðursælu votlendi sem einkennir svæðið. Ofan og vestan við byggðina eru miklar þyrpingar gervigíga sem kallast Álftaversgígar. Álftaversgígar hafa verndað byggðina að verulegu leyti fyrir jökulhlaupum samfara Kötlugosum. Álftaversgígar eru friðlýst náttúruvætti.
Lesa meira
Skaftáreldahraun

Skaftáreldahraun

Skaftáreldahraun er annað af tveimur stærstu hraungosum sem runnið hafa á jörðinni á sögulegum tíma. Hraunið, sem rann úr Lakagígum 1783, féll í tveimur meginstraumum til byggða, sitthvoru megin Kirkjubæjarklausturs. Á þeim átta mánuðum sem gosið stóð yfir kom upp um 12 km3 af basaltkviku á yfirborðið og þekur um 565 km2 lands eða um hálft prósent af flatarmáli Íslands. Skaftáreldahraun er flokkað sem helluhraun og eru þekktir fjöldi hraunhella í hrauninu. Víðast hvar myndar þykkur gamburmosi samfellt lag yfir hraunið sem gefur því gráan lit í þurrkum, en fallega grænt eftir rigningar.
Lesa meira
Langisjór

Langisjór

Langisjór er stöðuvatn sem er 20 km langt og nær á sumum stöðum 2 km breidd. Vatnið er suðvestan Vatnajökuls milli Tungnárfjalla og Fögrufjalla í fallegu og sérkennilegu umhverfi. Flatarmál þess er 27 km², mesta dýpi þess nær 75 m og vatnsborðið er í 670 metrum yfir sjávarmáli. Fjallasýn við vatnið er stórfengleg en sunnan við Langasjó má sjá Sveinstind en austan við hann eru Fögrufjöll. Þau ganga víða með þverhníptum klettahöfðum fram í Langasjó en vatnið er meðal tærustu fjallavatna á Íslandi. Margar eyjar eru í vatninu og landslag er stórbrotið.
Lesa meira
Skaftá

Skaftá

Skaftá er jökulá og eru upptök hennar í Skaftárjökli. Frá jökli liðast Skaftáin niður hálendið sunnan megin við Langasjó og niður á milli hinna fornu eldstöðva Lakagíga og Eldgjár. Eftir Skaftárdalnum hlykkjast áin niður á láglendið og rennur sunnan við þorpið Kirkjubæjarklaustur á leið sinni til sjávar.
Lesa meira
Kirkjugólf

Kirkjugólf

Skammt austan Kirkjubæjarlausturs er sérkennilegur jökul- og brimsorfinn stuðlabergsflötur, samsettur af endum lóðréttra blágrýtisstuðla. Kirkjugólfið er u.þ.b. 80m2 og þarna hefur aldrei staðið kirkja þó að þessi fallega bergmyndun beri þetta nafn. Kirkjugólfið er friðlýst náttúruvætti.
Lesa meira
Lómagnúpur

Lómagnúpur

Lómagnúpur er 688 m hátt standberg sem gnæfir yfir suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi. Vestan við hann stendur bærinn Núpsstaður. Stórbrotið umhverfi Núpsstaðar og Lómagnúps er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til Vatnajökuls. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir.
Lesa meira
Dverghamrar

Dverghamrar

Skammt austan við Foss á Síðu, eru sérkennilegar klettaborgir, fagurlega mótað stuðlaberg úr blágrýti Ofan á stuðlunum er víða það sem kallast kubbaberg. Landslagið er talið hafa fengið á sig þessa mynd við lok ísaldar. Þá var sjávarmál hærra og er talið að brimsvörfun hafi valdið þessu sérkennilega útliti hamrana. Dverghamrar eru friðlýst náttúruvætti. Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn.
Lesa meira
Lakagígar

Lakagígar

Lakagígar eru stórfengleg 25 km löng gígaröð á Síðumannaafrétti. Liggur hún frá móbergsfjallinu Hnútu, til norðausturs í gegnum fjallið Laka, sem er 818 metra yfir sjávarmáli, og endar í Vatnajökli. Laki stendur nokkurn veginn í miðri gígaröðinni og af honum er frábært útsýni yfir gígaröðina og landslag afréttarins. Það er óhætt að segja að útsýni yfir svæðið sé einstakt bæði vegna sérstæðrar náttúrunnar og vegna þeirrar sögu sem fylgir gígunum.
Lesa meira
Steinsmýrarflóð

Steinsmýrarflóð

Votlendið frá jaðri Eldhrauns norður og austur að söndum og suður að Eldvatni. Gulstararflóð og grunnt stöðuvatn. Þar er mikið fuglalíf.
Lesa meira

Friður og frumkraftar | kt.411009-2620 |  Klausturvegi 2  |  880 Kirkjubæjarklaustur  |  Sími +354 4874620  | visitklaustur@visitklaustur.is

Vatnajökulsþjóðgarður        Katla Geopark        Kirkjubæjarstofa     Upplifðu Suðurland      Inspired by Iceland     Ferðamálastofa   

Video

Hér eru myndbönd frá Suðurlandi


View our videos

Veður

Kirkjubæjarklaustur

Fim. kl. 00:00
m/s
°C

Meira á vedur.is

Póstlisti

Skráði ykkur á póstlistann til að fá fréttabréfið í pósti

Myndir

Miðlar

Þú getur fylgt okkur á Facebook

Facebook