Eldgjá er talin tilheyra sama eldstöðvarkerfi og Katla. Eldgjá er einstakt náttúrufyrirbæri og er á náttúruminjaskrá.
Komið hafa fram kenningar um að afleiðinga gossins hafi ekki síður gætt um víða veröld en gossins í Lakagígum. Samkvæmt nýlegum rannsóknum urðu á tíma gossins uppskerubrestir, pestir og hörmungar bæði í Evrópu og Miðausturlöndum. Jafnvel eru leiddar að því líkur að þetta gos hafi valdið meira tjóni en Lakagígagosið.
Fjallabaksleið nyrðri liggur um Eldgjá á milli Kirkjubæjarklausturs og Landmannalauga. Frá áningarstað sem þar er má ganga að Ófærufossi í Nyrðri-Ófæru. Einnig liggur vegslóði upp á austurbarm Eldgjár. Til að komast þangað þarf að aka Nyrðri-Ófæru á vaði sem getur verið varasamt. Óhætt er að mæla með göngu upp á Gjátind, þaðan sem útsýni er frábært yfir Eldgjá, til fjalla við Langasjó, Fjallabak og Síðuafrétt með Lakagígum.